Hvenær nær Terrazzo æðið til Íslands?

Við lögðum land undir fót fyrr á þessu ári og heimsóttum kollega okkar, skandinavíska steinsmiðju, sem þjónustar Svíþjóð, Noreg og Danmörk. Ferðin var fyrst og fremst hugsuð til þess að kynnast og bera saman bækur um framleiðsluaðferðir og vélar til þess að geta þjónustað viðskiptavini okkar á Íslandi.

Á slíkum ferðalögum lærist alltaf eitthvað nýtt en það sem kom okkur sennilega mest á óvart og var okkar stærsti lærdómur í þessari ferð hve vinsæll ekta ítalskur terrazzo er þessi misserin sem borðplötur í Skandinavíu.

Raunar svo vinsælt að stærðarinnar vörugeymsla og rekka stæðurnar fyrir utan voru betrektar ítölskum terrazzo. Sömuleiðis í verksmiðjunni, sem er mun stærri en sú sem við rekum á Íslandi, var fjöldi terrazzo borðplatna í framleiðslu nákvæmlega þá stundina sem heimsókn okkar stóð yfir.

Aðspurð um vinsældirnar á ekta ítölskum terrazzo í Skandinavíu sögðu þau að sennilega mætti rekja það til þriggja þátta:

Í fyrsta lagi væri þetta ofboðslega fallegt efni sem byggir á aldagamalli framleiðsluaðferð frá Feneyjum þar sem marmara, granít og kvarts er mulið í stærðarinnar mót með steypu sem gefur einstakt útlit með mikla dýpt.

Í öðru lagi væri þetta mun praktískara en margir náttúrusteinar vegna þess að gljúpir náttúrusteinar fá vernd með steypunni sem gerir þetta að slitsterku efni sem enginn þarf að hafa áhyggjur af í eldhúsinu.

Í þriðja lagi væri það að terrazzo væri einfaldlega á ofboðslega góðu verði miðað við hvað margir hafa haldið sem í bland við fegurð og praktískt notagildi gerði þetta að þeim vinsæla kosti sem ítalskur terrazzo er að reynast í borðplötum í dag.

Íslendingar sækja mikið af sínum innblæstri til Skandinavíu og höfum við séð sterka fylgni milli þess hvað er vinsælt þar og hvað er vinsælt á Íslandi þegar kemur að útliti á þeim steini sem við seljum í dag. Við vorum því varla lent aftur á Fróni þegar við höfðum sett okkur í samband við framleiðanda í Verona á Ítalíu um að skaffa okkur efni til þess að geta boðið ekta ítalskan terrazzo á Íslandi. Viðbrögðin hafa heldur ekki staðið á sér frá því við kynntum þetta fyrst fyrir nokkrum vikum.

Fyrstu terrazzo borðplöturnar í íslensk eldhús eru á leiðinni til landsins og við hlökku mikið til þess að geta sýnt ykkur hvernig þetta kemur út hjá viðskiptavinum okkar hér á landi. Þessu til viðbótar höfum við líka fengið mikið af fyrirspurnum um alvöru terrazzo flísar (en ekki keramík flísar með terrazzo prentun) og höfum við nú þegar skaffað viðskiptavinum okkar þær. Til að geta orðið við þeim fyrirspurnum eru fljótlega fleiri terrazzo flísar á leið til landsins þó áhersla okkar til þessa hafi fyrst og fremst verið á borðplötur í eldhúsið.

Við höfum það á tilfinningu að skandinavíska terrazzo æðið sé á leiðinni til landsins. Hvort það komi með hlýrri hafgolunni í sumar eða hvort það dragist fram á haustið verður að koma í ljós en við erum amk komin með efnið og tilbúin að þjónusta fagurkera landsins þegar að því kemur.

Previous
Previous

Fyrir og Eftir - Framkvæmdir á nýjum sýningarsal á Viðarhöfða

Next
Next

Veggplötu tilboð í maí